Alþingi á að starfa fram að kosningum

Ég er á því að Alþingi eigi að starfa alveg þangað til kjörstaðir opna 25. apríl. Þá getur þjóðin séð hvernig sjálfstæðismenn setja nýjar og hærri viðmiðanir í málþófi til að vernda hagsmuni Flokksins. Og Birni Bjarnasyni dirfist að gera það undir því yfirskini að "vernda heiður Alþingis."

Um þetta snýst málið:

  1. Að afnema varanlega vald til að gefa eða selja einkaaðilum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
  2. Færa almenningi vald til að geta haft bein áhrif á mál milli kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur.
  3. Færa almenningi beinna vald til breytinga á stjórnarskrá með ákvæði um hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga.

Mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála þessum breytingum og það er algerlega óskiljanlegt að sjálfstæðismenn átti sig ekki á því. Á meðan reytist fylgið af Flokknum.


mbl.is Myndi fagna þúsund ræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert endilega á móti þessum breytingum. Þær eru bara hroðvirknislega unnar.

Þrátt fyrir lítinn tíma til umsagnargerðar, vegna óskiljanlegs hraða, hafa um 30 umsagnir borist til Alþingis um málið og margir lögfróðir menn og aðrir aðilar í þjóðfélaginu hafa gagnrýnt vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á öðrum vettvangi.

Aðeins tvær umsagnir fjalla um frumvarpið á jákvæðum nótum. Þær umsagnir eru að sjálfsögðu unnar af klappstýrum ríkisstjórnarinnar. Annars vegar frá ASÍ, þar sem Gylfi Arnbjörnsson samfylkingarmaður situr sem forseti og nýtir sér það sæti óspart til þess að tala máli Samfylkingarinnar. Hin umsögnin er frá BSRB, þar sem Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, gegnir formennsku.

Skrif fræðimanna eru skiljanleg, enda getur frumvarpið varla talist neitt annað en uppskrift af réttaróvissu.

Ég held að Björn Bjarnason eigi skilið heiður fyrir að standa vörð um stjórnarskrá okkar landsmanna og varna henni frá illa unnum breytingum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill breyta 1. mgr. 79. gr. stjskr. sem mælir fyrir um hvernig breyta má stjórnarskránni. Það hefur ekki tekist að ræða um það enn þar sem þjóðareignarákvæðið virðist eiga að skipta svona miklu máli.

Þjóðareignarákvæðið er einmitt fáránlega illa unnið. Hvernig getur þjóð átt eitthvað? Aðeins ríkið, fyrirtæki og einstaklingar geta átt hluti. Sigurður Líndal, lagaprófessor, hefur einmitt lýst því yfir að þetta sé "hrein markleysa". Það er ekki ljóst hvaða merking felst í ákvæðinu.

Svo held ég að þú getir ekki með nokkru móti rökstutt það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu að vernda hagsmuni flokksins.

Þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar sé sammála breytingunum verður að vinna þær vel svo þær endi ekki í einhverju réttaróvissu kabúmmi, eða eins og Kolbrún Halldórsdóttir orðaði það fyrir ekki svo löngu: "Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást."

Þetta er ómálefnaleg gagnrýni hjá þér Sigurður, á málefnalegar aðfinnslur þingmanna Sjálfstæðisflokksins á illa unnið frumvarp til stjórnskipunarlaga.

Rafn (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 17:30

2 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Þessi athugasemd er málþóf í rituðu máli.

Að standa vörð um núverandi kvótakerfi kalla ég að vernda hagsmuni flokksins.

Hvað nákvæmlega í mínu bloggi er ómálefnalegt?

Sigurður Haukur Gíslason, 17.4.2009 kl. 17:54

3 identicon

Miðað við málsflutnings flutningsmanna á Alþingi á þetta ákvæði ekki að breyta kvótakerfinu með neinum hætti. Þetta snýst bara ekkert um kvótakerfið.

Reyndar lýsti minnir mig Lúðvík Bergvinsson því yfir að þetta myndi að engu leiti breyta kvótakerfinu. Helgi Hjörvar sagði að það myndi gera það. Það virðist greinilega ekki einu sinni vera nægur skilningur í herbúðum stjórnarliða um hvað ákvæðið á að þýða, sem þýðir að það mun óneitanlega skapa réttaróvissu.

Reyndar segir í fiskveiðistjórnunarlögunum að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar, sem þýðir væntanlega að dómstólar munu ekki komast að annari niðurstöðu en þeir gerðu í vatneyramálinu fræga.

Það er ómálefnalegt að setja málefnalegar aðfinnslur stjórnarandstöðunnar upp sem eitthvað málþóf sem sé gert til að vernda hagsmuni flokksins.

Rafn (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 18:35

4 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Það er ómálefnanlegt að halda því fram að málþóf sjálfstæðismanna séu málefnanlegar aðfinnslur.

Það sem eftir stendur er að Sjálfstæðisflokkurinn er algjörlega einangraður í sinni hagsmunagæslu og á eftir að bitna á honum í kosningunum.

Vittu til.

Sigurður Haukur Gíslason, 18.4.2009 kl. 00:14

5 identicon

Miðað við síðasta kommentið þitt, Sigurður, finnst mér ólíklegt að þú hafir lesið kommentin mín.

Reyndar miðað við þá afstöðu þína að það sé "ómálefnalegt að halda því fram að málþóf sjálfstæðismanna séu málefnalegar aðfinnslur", finnst mér ólíklegt að þú hafir kynnt þér efnislega hvað stjórnarandstæðan er að segja.

Það að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé eingangraður er líka kjaftæði. Ég held að ég hafi nefnt nokkuð marga aðila í fyrrum kommentum mínum og þó ég nenni nú ekki að fara að endurtaka mig hér. Þá er hérna góður listi af nokkrum aðilum sem hafa gagnrýnt frumvarpið:

Laganefnd Lögmannafélags Íslands
Samtök um lýðræði og almannahag
Samband íslenskra sveitarfélaga
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti
Davíð Þorláksson, lögfræðingur
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögfræði
Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, prófessorar í hagfræði
Landsvirkjun
Norðurál
Rarik
Samorka
Reykjavíkurakademían
Samtök atvinnulífsins
Landssamband smábátaeigenda
Félag umhverfisfræðinga
Orkustofnun
Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri

Rafn (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 14:56

6 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Margir af þessu umsagnaraðilum hafa komið með leiðréttingar í fjölmiðlum og sakað Sjálfstæðisflokkinn um að slíta umsagnir sínar úr samhengi t.d. félag umhverfisfræðinga.

Auk þess var búið að draga ýmis mál til baka s.s. stjórnlagaþingið sem var helsta ágreiningsefnið

Sjálfstæðismenn vilja ekki að auðlindir þjóðarinnar skulu vera í hennar eign sbr. lið 1. hér að ofan en af hverju í ósköpunum gátu þeir ekki fallist á lið 2 og 3?

Sigurður Haukur Gíslason, 18.4.2009 kl. 15:17

7 identicon

Hvaða umsagnaraðilar fyrir utan félag umhverfisfræðinga hafa gert það?

„FUMÍ telur að fyrir þurfi að liggja skilgreining á því hvað felst í að láta náttúruauðlindir í þjóðareign varanlega af hendi“ - félagið er greinilega að vísa til þess að 1. gr. frumvarpsins er ekki nægilega útlistuð og óvissa ríkir um hana. Gæti vel verið að einhver hafi tekið þetta úr samhengi, það breytir hins vegar ekki gagnrýninni.

"Sjálfstæðismenn vilja ekki að auðlindir þjóðarinnar skulu vera í hennar eign". - Þjóðir geta ekki átt neitt.

Þú spyrð: "Af hverju í ósköpunum gátu þeir ekki fallist á lið 2 og 3". - Þetta er bara ekki alveg rétt hjá þér. Liðirnir þínir eru stefnumál, sem í raun er í fljótu bragði hægt að fallast á. Hins vegar er það allt annað hvernig þetta er sett í stjórnarskrá.

Varðandi lið 3 hjá þér, þá er hann í fyrsta lagi rangur, þar sem 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir því að hægt verði að breyta stjórnarskrá án þess að þing sé rofið, þ.e. án kosninga. Þessu eru Sjálfstæðismenn sammála. Þannig að þetta er rangt hjá þér.

Varðandi lið 2 hjá þér, sem er 3. gr. frumvarpsins snýr gagnrýni sjálfstæðismanna aðallega að þeim hroðvirknislegu vinnubrögðum sem ríkisstjórnin hefur viðhaft og eru þeir ekki einir um það. T.d. hefur Davíð Þór Björgvinsson gagnrýnt það og Ragnheiður Helgadóttir hefur varað við því að það verði sett inn í stjórnarskrá.

Alþingi á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um "tiltekin lög eða mikilvægt málefni sem varðar almannahag". Það kemur t.d. fram í nefndaráliti að þetta sé ekki nægilega skýrt, enda er þetta allt of loðið.

Sjálfstæðismenn telja að í ákvæðinu þurfi að skýra nánar með afmörkuðum dæmum hvaða lögum eða hvers konar mikilvægum málefnum sé eðlilegt að vísa til samþykktar eða synjunar þjóðarinnar.

Umsagnaraðilar gera ýmsar athugasemdir við aðra þætti ákvæðisins, t.d. er hlutfallið 15 af hundraði umdeilt. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins lýsa bæði áhyggjum af þessu ákvæði.

Þjóðaratkvæðagreiðslur séu vandmeðfarnar, ákvæðið geti vakið réttaróvissu, óvissa ríki um kostnað o.s.frv. og telja bæði að hlutfallið í ákvæðinu sé of lágt. Samtök atvinnulífsins leggja til 20% þröskuld, þ.e. það hlutfall kjósenda sem þyrfti að gera kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Telja þau hættu á að áhrif ákvæðisins hefðu lamandi áhrif á ákvarðanir þings og stjórnvalda.

Samand íslenskra sveitarfélaga bendir líka á það að framkvæmd Alþingiskosningar kosti um 100 milljónir króna sem þýðir að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi líklega kosta eitthvað álíka. Af þeim sökum og með hliðsjón af þeirri réttaróvissu sem þjóðaratkvæðagreiðsla um samþykkt lög frá Alþingi skapar dregur sambandið í efa hvort forsvaranlegt sé að 15% kosningabærra manna geti með bindandi hætti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er nánast óumdeilt í fræðimannasamfélaginu að þetta frumvarp er hroðvirknislega unnið og það er óverjandi að viðhafa þannig vinnubrögð þegar kemur að grundvallarlögum ríkisins. Um það snúast í meginatriðum aðfinnslur þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Rafn (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 17:10

8 identicon

Rafn Segir:
1. "Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert endilega á móti þessum breytingum. Þær eru bara hroðvirknislega unnar."
Vonandi hefur Rafn búandi á landinu eða fengið fréttir af málsmeðferð á Alþingi. EKKERT mál hefur fengið meiri umfjöllun á lýðveldistíma.

2. Rafn segir: "Þrátt fyrir lítinn tíma til umsagnargerðar, vegna óskiljanlegs hraða, hafa um 30 umsagnir borist til Alþingis um málið og margir lögfróðir menn og aðrir aðilar í þjóðfélaginu hafa gagnrýnt vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á öðrum vettvangi."
Þetta er auðvitað þversögn við það sem sagt er í #1.

3. Rafn segir: Sjálfstæðisflokkurinn vill breyta 1. mgr. 79. gr. stjskr. sem mælir fyrir um hvernig breyta má stjórnarskránni. Það hefur ekki tekist að ræða um það enn þar sem þjóðareignarákvæðið virðist eiga að skipta svona miklu máli."
Þegar ákveðið var að ganga að kröfum sjáfstæðismanna var ákveðið að breyta einungis 79. greininni. Samkomulag var um breyta henni EN sjálfstæðismenn sóttu nefndarálitið í prentsmiðjuna og afturkönnuðu samkomulagið ca. kl. 12 á föstudag. Annan eins óheiðarleika hef ég ekki upplifað.

4. Rafn segir: "Þetta er ómálefnaleg gagnrýni hjá þér Sigurður, á málefnalegar aðfinnslur þingmanna Sjálfstæðisflokksins á illa unnið frumvarp til stjórnskipunarlaga."
Ómálefnaleg gagnrýni er matsatriði, staðhæfing málefnaandstæðingar um slíkt er marklaus. Mér finnst einmitt að þó ég sé sammála/ósammála þá er þetta snarplega fram sett. Ómaklegt, Rafn.

5. Rafn segir:" Reyndar segir í fiskveiðistjórnunarlögunum að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar, sem þýðir væntanlega að dómstólar munu ekki komast að annari niðurstöðu en þeir gerðu í vatneyramálinu fræga." Lesa fleiri dóma Rafn, Valdimarsmálið er kýrskýrt dæmi. Þá er stjórnun annað en eign. Kvótaeigendur eru með nýtingarrétt, ekki eignarrétt eins og Sigurður Kári hélt fram.

6. Eitt dæmi í lokin varðandi umsagnaraðila. Listinn er fróðlegur og ansi langt seilst að fá umsagnir erlenda aðila. Bara það að minn ágæti vinur Ágúst Þór var settur á lista yfir gangrýnenda setti hlátur... að okkur báðum. IP-Rafn þarf að kynna sér málin betur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 23:49

9 identicon

Rosalega manstu stutt Gísli. Hefur ekkert mál fengið meiri umfjöllun á lýðveldistíma? Ég veit ekki hvernig þú getur sett mælistiku á umfjöllun nema að þú sért að tala um umfjöllun í þingsal um fundarstjórn forseta?, sem að sjálfsögðu getur ekki talist nein umfjöllun. Það er aðeins gert til að varna að þetta hroðvirknislega frumvarp verði samþykkt. T.d. má nefna þegar mannréttindakafla stjórnarskrárinnar var breytt árið 1995, en sú vinna var í gangi í einhver ár.

Sé ekki hvernig nr. 2 er þversögn við nr. 1, nema að sjálfsögðu þú sért að gefa þér að það sem þú segir sé satt, sem það er ekki.

Ég er heldur ekki sammála því að það sé markleysa þegar málefnaandstæðingar saka hvorn annan um að vera ómálefnalegir. Mér finnst einmitt skemmtilegast að tala við málefnalega málefnaandstæðinga, og það er sem betur fer oftar en ekki sem mér finnst málefnaandstæðingar mínir vera málefnalegir (Þó mér finnst hafa dregið úr því í kjölfar hræðslunnar sem hefur gripið um sig). Að sjálfsögðu er þetta matsatriði, það þýðir ekki að ég megi ekki leggja mat á það.

"Þá er stjórnun annað en eign. Kvótaeigendur eru með nýtingarrétt, ekki eignarrétt eins og Sigurður Kári hélt fram." - Ég held að þú sért eitthvað að misskilja Gísli. Valdimarsmálið? Ég var að tala um Vatneyrarmálið, það er ekki sami dómur. Í Valdimarsmálinu komst Hæstiréttur að því að að skilyrði ákvæðis í fiskveiðistjórnarlögum, fyrir veitingu almenns veiðileyfis fengju ekki staðist. Taldi rétturinn að ákvæðið bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði sem gæta þyrfti við takmörkun á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Vatneyrardómurinn fjallar hins vegar um kvótakerfið og þá kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að það brjóti ekki í bága við stjórnarskrá. Ég veit það og ég er sammála því að kvótaeigendur eru með nýtingarrétt en ekki eignarrétt, það var einmitt það sem ég var að segja. Þjóðareignarákvæði myndi að öllum líkindum ekki hafa áhrif á kvótakerfið. Þrátt fyrir að sú þróun í lögskýringum að skýra eignarréttarákvæði það rúmt að það taki til afnotaréttinda. Það er hins vegar annað mál.

Þennan lista tók ég af netinu, en þar segir:

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri:

„Því miður gildir hið sama í báðum tilfellum að tími til umsagnar um svo viðamikið mál er of skammur til að forsvaranlegt sé að senda skriflega umsögn um málið.“

Að lokum vil ég segja að ég efast um að þingmenn sjálfstæðisflokksins hefðu dregið til baka vilyrði sitt um 79. gr. ef ríkisstjórnin hefði ekki haldið svona fast um þjóðareignarákvæðið.

oooog útaf því að mér þykir svo ótrúlega gaman að vísa í vinstrimenn, haha, þá held ég bara að orð Steingríms J. Sigfússonar séu svo ótrúlega viðeigandi: „En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“

Rafn (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 03:42

10 identicon

IP- Rafn er greinilegar vel þjálfaður málþófsagent. Á sínum tíma ákvað það reyndar að þeir sem ekki rökræddu hér á netinu undir nafni væru ekki þess virði að  eyða orðum að líkt og berjast með aðra hönd bundna. Margt þarna sem skrifað er má vel flokka sem útúrsnúningur jafnvel bull. Mig grunar að hér eigi ég skoðanaskiptum við einn af fráfarandi þingmönnum FLokksins enda viðurkennt að um viðurkennt málþóf hafi verið að ræða. Hirði ekki að fara í einstaka liði enda þegar málroðið er snúið þá hentar það hundum. Svona stallathugasemd að ég viti ekki mun á dómum vegna fiskveiðistjórnar er hreinlega móðgandi. ÁÞÁ getur svarað fyrir sig en hann, enda göbbelsstyttir þú svar hans. Hann átti við allar breytingarnar en ekki þau mikilvægustu. Sjálfstæðismenn komu fram í þessu máli af hertustu óheilindum og munu mála sig út í horn í stjórnmálum næstu ár. Og það sem meira er, skorið á persónutengsl við fólk í öðrum flokkum sem er mikilvægt. Fleira vil ég ekki sveifla að IP- Rafni nema hann hafi þor að koma fram í dagsljósið. En flokkurinn sem hann heldur uppi vörnum hefur einatt sitt í skúmaskotum. Ég ég býst alveg eins við því að rafninn krúnki á nú og jafnvel tíni steina úr vasa sínum og kasti í fólk líkt og stjórnmálagoð hans gerði á Klambratúni forðum.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 09:19

11 identicon

Gísli, það var ekki ætlunin að fela nafn mitt, enda skammast ég mín ekkert fyrir skoðanir mínar. Ég er ekki fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þó mér finnst sú ásökun skemmtileg. Ég heiti Rafn og er Steingrímsson, ég skrifaði bara undir nafninu Rafn þar sem ég býst við að höfundur síðunar þekki mig ágætilega. Einnig hef ég rætt við þig, Gísli, augliti til auglits.

Það var ekki ætlunin að gera lítið úr þekkingu þinni á fiskveiðidómum. Hins vegar var ég að tala um Vatneyrarmálið í sambandi við kvótakerfið og sá ekki alveg hvað Valdimarsmálið kom málinu við.

Svo finnst mér frekar skrýtið að segja að margt sem ég segi sé útúrsnúningar og bull án þess að rökstyðja það nokkuð frekar, enda eru þetta stórar fullyrðingar, sem settar fram eru í kappræðustíl sem er ekki boðlegur í rökræðum.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra þar sem þetta farið að leiðast út í kappræður sem einkennast af rökleysu málefnaandstæðinga minna. Kappræður eru aldrei boðlegar enda snúast þær ekki um það að fá hið rétta fram í málinu.

Rafn Steingrímsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 19:21

12 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Rétt að stoppa hér enda umræður komnar langt út fyrir efnið. Það sem stendur uppúr miðað við umræður síðustu daga þá telja sjálfstæðismenn sig vera þá einu réttu sem mega breyta stjórnarskránni.

Og eins og Björn Bjarna orðaði það:

"Við erum búnir að tala núna um 700 sinnum þingmenn um þetta og ef við næðum þúsund ræður til að verja heiður Alþingis væri það mjög til ánægjuauka og yrði göfugt markmið - jafnvel 2000 ræður til að verja heiður Alþingis því það eru aldrei nógu margar ræður fluttar til að verja heiður þingsins,"

Sigurður Haukur Gíslason, 21.4.2009 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband