Bílakirkjugarður Bílgreinasambandsins

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, skrifaði grein í Fréttablaðið sl. mánudag þar sem hann lýsir því hvernig reglum er háttað í Danmörku varðandi vöru- og skráningargjöld á bílum. Þessar reglur eru þess valdandi, að mati hins danska bílgreinasambands, að endurnýjun bílaflotans er of hæg. Það leiðir til þess að mengandi og bremsulausir bílar séu á götunum, öllum til ama. Nær væri að hafa reglurnar þannig að þær stuðluðu að endurnýjun á bílaflotanum mun fyrr. Nýjir bílar bremsa jú betur og menga minna en gamlir. Greinin endar svo á þeirri "hræðilegri" staðreynd að meðalaldur einkabíls hér á landi er 9,5 ár og stefnir í óefni.

Í fyrsta lagi þá er tímasetning á þessar grein "út úr kú" svo vægt sé til orða tekið. Á að stuðla að auknum bílainnflutningi á sama tíma og ríkir lausafjárskreppa í heiminum og ekki er til gjaldeyrir í landinu til að kaupa nauðsynjar?

Svo þarf maður ekki að vera bifvélavirki til að geta sér til um að nýr bíll bremsi betur en 5 ára gamall bíll. Þess vegna erum við með skoðunarstöðvar. Ef bremsulausir bílar eru hér á götunum þá er það ekki vegna þess að þeir eru gamlir heldur að þeir eru ekki í lagi. Svo hef ég ekki séð neinar tölur um það að gamlir bílar séu frekar að valda árekstrum en nýjir. Það er miklu frekar undir ökumanninum komið.

Svo kemur klisjan um að gamlir bílar mengi svo mikið að það borgi sig að henda þeim og kaupa nýjan sem mengar minna. Það hefur svo góð áhrif á umhverfið. Staðreyndin er hins vegar sú að það er alltaf betra að nýta og endurnýta heldur en að búa til nýtt. Að ég skuli keyra á gömlum bíl hefur jákvæð áhrif á umhverfið því þá þarf ekki að búa til nýjan bíl handa mér. Það ferli er mjög mengandi. Auk þess sem tugþúsundir bíla standa hér á landi á bílasölum og það væri nær að nýta hluta af þeim í stað þess að flytja inn nýja.

Ég er mjög hissa á að umhverfisfræðingar hafi ekki mótmælt þessari stefnu að það borgi sig að henda gömlu og búa til nýtt í stað þess að nýta betur eða endurnýta. Þessi grein er alls ekki sú fyrsta í þessa átt og sennilega ekki sú síðasta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður! gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband