24.9.2008 | 00:52
Árangur nemenda og laun kennara
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir viðrar á heimasíðu sinni hugmyndir um að tengja saman árangur nemenda við laun kennara. Þessar hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni og þær stranda alltaf á því að ekki er hægt að tengja saman árangur nemenda við laun kennara með óyggjandi hætti.
Tökum nokkur tilbúin dæmi:
Í skólanum mínum þá erum við þrír stærðfræðikennarar sem skiptum með okkur 55 manna árgangi í 10. bekk. Við skiptum í hópa eftir getu svo við getum komið sem mest til móts við þarfir nemenda og er ég með 15 nemendur sem gengur mjög ílla í stærðfræði. Árangur þessa hóps miðað við hina hópana í skólanum verður örugglega lakari í vor.
Á ég þá að fá lægri laun en hinir kennararnir?
Ég kenni öllum nemendum í 8. bekk í skólanum mínum efnafræði. Hvernig á að meta árangurinn eftir veturinn? Miðað við aðra skóla? Og segjum sem svo að hópurinn kæmi illa út í samanburðinum og ástæðan var að þau komu með engan grunn úr yngri bekkjum. Eða að árgangurinn er almennt námslega slakur.
Á ég þá að fá lægri laun en hinir kennararnir?
Ég kenni eðlisfræði í 9. bekk og nemendur hafa engan áhuga á að læra heima. Þeir hafa hins vegar sérstakan áhuga á íþróttum, stærðfræði og tónlist. Þessir nemendur æfa bæði handbolta og fótbolta ásamt því að vera í skólahljómsveitinni og missa aldrei af æfingu. Sá litli tími sem þeir hafa til að læra heima er stærðfræði. Allt þetta er gert með vitund og vilja foreldra.
Á ég þá að fá lægri laun en hinir kennararnir af því að krakkarnir hafa lítinn áhuga á eðlisfræði?
Það eru fleiri stéttir sem þetta gildir um t.d. löggur. Eiga þær að fá greitt eftir því hvað þær handtaka marga á mánuði? Eða hve oft er brotist inní hverfið á þeirra svæði?
Athugasemdir
Þú nefnir lögreglumenn, þetta hefur verið reynt með góðum árangri. Lögreglan á Blönduósi er þekkt fyrir að hafa góða stjórn á umferðarhraða í umdæmi sínu. Það fær bæði embættið og lögreglumennirnir bónus sem felst í e.k. hlutdeild í innheimtum umferðarlagasektum. Virkar.
Bóbó (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 05:11
Ekki eru allir á eitt sáttir varðandi "árangur" þarna fyrir vestan. Það má líka spyrja sig þeirrar spurningar hvort fjöldi sekta sé ekki vegna þess að menn taka meiri sjens í vestursýslunni. Þar er reyndar þannig að gæslusvæðið er frekar einfalt frá Hlíð í Langadal. Og menn mældir oftast á keyrslu niður brekkurnar. Segi þetta vegna þess að mjög margar forsendur þarf að skoða þegar "árangur" á að mæla. Nánast útilokað í kennslu þó loksins alræmd samræmd próf séu að hverfa og byggt meir á skólamati. Kemur t.d. Hjallastefnan vel eða ílla út úr árangursmati? Vel ef miðað er við umhverfi leikskólans, hugsanlega ílla ef námsferli barna er skoðað í grunnskólanum.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 09:57
Ég er sammála þér með að ekki er einfalt að ætla að tengja árangur nemenda og laun kennara. Ég held reyndar að það sé ómögulegt ef á að gera það á sanngjarnan hátt. Svo er eitt sem ekki má gleyma. Nemendur, bekkir og árgangar eru misjafnir. Á ég þá að fá lægri laun í ár en í fyrra af því að samsetningin er þannig að meðaltalið lækkar!!!!! Ég er þó sennilega ennþá að nota svipaðar aðferðir en nemendurnir eru aðrir.
Kristín Guðbjörg Snæland, 24.9.2008 kl. 11:02
Bóbó! En ef löggan í Seljahverfi verður svakalega dugleg að koma í veg fyrir innbrot og innbrotum fækkar, á þá að lækka launin?
Sigurður Haukur Gíslason, 24.9.2008 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.